mánudagur, desember 11, 2006

Síðasta færslan - Komin heim

Jæja, þá er Ameríkuævintýrinu lokið, því er þetta síðasta færslan. Við Gunni og Gunnar Magnús munum samt láta vita af okkur á síðunni hans Gunnars Magnúsar, svona fyrir nokkra vini erlendis. Við búum núna á Selbrautinni en fáum Garðastrætið afhent á föstudaginn. Búslóðin kemur hins vegar ekki fyrr en í byrjun janúar, þannig að við flytjum nú ekki inn strax. Gunni byrjar líka að vinna næsta föstudag. Ég byrja hins vegar ekki fyrr en 1. mars og það lítur út fyrir að barnið sé komið með dagmömmu. Þannig að allt er í lukkunnar standi :)

Við Gunni erum með gömlu gemsana okkar, ég með 821-5300 og Gunni með 8-200-225. Endilega hafið samband :)

Svo þakka ég bara fyrir allar heimsóknirnar og kommentin á þessari síðu. Lifið heil :)

laugardagur, desember 02, 2006

Kveðjuteiti

Við héldum smá kveðjupartý í Community Centerinu í kvöld. Þar fengum við marga góða gesti sem við höfum kynnst hérna í Seattle. Ég var nú alltof léleg að taka myndir, en hérna koma nokkrar.


Hér er Gunni með Imad og Oksönu. Imad var með Gunna í IE og er frá Marokkó og Oksana er frá Úkraínu.


Tumi og Erna spjalla.


Íslendingar gæða sér á gómsætri Costco-pizzu.


Anna og Solla spjalla við krakkana.


Kellan sker fermingartertuna, sem rann svo ljúflega ofan í gestina.

Radfordið kvatt


Hluti af flutningateyminu á milljón. Pakkað var í gáminn á einum og hálfum tíma, sem hlýtur að teljast Ameríkumet.


Flutningateymið hafði beðið allan daginn eftir gámnum, sem var seinn vegna ófærðar í Seattle borg. Ég á ekki til orð yfir þakklæti til þeirra allra.


Feðgarnir bregða á leik í tómri íbúðinni. Gunnar Magnús var þarna í #824 í síðasta skiptið, eftir að hafa búið þar alla ævina eða það sem af er hennar.


Familíinskí kveður Radfordið.


Þarna vorum við að fara að loka á eftir okkur og skila lyklunum. Leitt að fara. En við höfum átt góða tíma í Radfordinu og okkar bíða nú góðir tímar í Garðastrætinu vonandi.


Allt tómt...

föstudagur, desember 01, 2006

Þakkargjörð

Þakkargjörðarhátíðin haldin hérna í Ameríku fyrir um viku síðan. Við borðuðum hjá Sollu og Gunna, ásamt góðu gengi af fólki.


Sest að þakkargjörðarborðinu; ég, Gunnar Magnús, Grímur, Gunni Gunn, Anna, Solla, Erna, Hjalti, Armin og Líney.


Armin og Líney.


Armin tók að sér að kenna Gunnari Magnúsi smá sveiflufræði.


Erna kom með íslenskt Nóa-konfekt. Það féll í mjög góðan jarðveg. Mér fannst næstum því nóg að þefa af molanum. Mmmm... En flestir þekkja mig nú betur en það ;)

Grímur milli Gunna.


Kellan og barnið.


Ljómandi fín stemmning eftir matinn.


Svo lauk kvöldinu með Sing Star þar sem kynin kepptu og við stúlkurnar rústuðum þessu að sjálfsögðu.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Niðurpökkun

Það jafnast fátt við þá gleði að pakka niður búslóð, nema kannski að taka upp úr kössunum á nýjum stað, ég veit ekki. Það kemur í ljós á nýju ári hvort er skemmtilegra. Þetta er svona það helsta sem er í fréttum. Jú, og kellingin er komin með vinnu :) Byrja að vinna á Hönnun í mars, ásamt fríðu föruneyti, t.d. Ólöfu, Steina og Möllu, svo fáeinir séu nefndir. Ég hlakka ofsalega mikið til. Þetta er sá starfsstaður sem ég setti númer eitt hjá mér, þar sem svo margir láta svo vel af honum, þannig að ég er ótrúlega ánægð. Þannig að nú verð ég aldeilis að finna góða dagvistun fyrir drenginn.


Rosalega fínt hjá okkur þessa dagana.


Mjög barnvænt umhverfi.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Skrýtið

Skrýtið að hugsa til þess að þetta séu síðustu vikurnar okkar í Seattle - í bili að minnsta kosti. Við höfum aðeins verið í að undirbúa heimför en það gengur ekki allt of hratt. Ótrúlegt hvað maður er búinn að sanka að sér miklu drasli á tveimur árum. Það er alveg nauðsynlegt að flytja reglulega, til að neyða sig til að fara í gegnum dótaríið allt saman. Maður endar á að henda mjög mörgu nefnilega.

Í kvöld fórum við í heimsókn til góðra vina, Mike og Jess. Þau eru flutt í ótrúlega kósý íbúð í Capitol Hill, með múrsteinaveggjum og útsýni yfir nálina út um eldhúsgluggann. Við fengum hefðbundinn amerískan mat, chicken pot pie sem var að sjálfsögðu delissíus, enda ekki við öðru að búast á þeim bænum. Gunnar Magnús lék á als oddi á meðan við borðuðum, lék sér með trukkinn sinn og kubba og hló alltaf þegar við hlóum, frekar fyndið. Eftir matinn erum við eitthvað að spjalla saman í stofunni og ég sit á gólfinu og held í hendurnar á Gunnari Magnúsi fyrir framan mig. Allt í einu byrjar barnið hálfpartinn að skjálfa og gefa frá sér skringilegt væl. Sé ég þá köttinn þeirra lalla til okkar, 13 ára gamall mjög sakleysislegur kisi. Þetta er náttúrulega eins og tígrisdýr í augum barnsins! Þannig að honum var að sjálfsögðu svolítið brugðið. Við vorum samt fljót að sætta okkur við kisa, segja nokkur mjá, mjá og klappa honum. Allir sáttir.

Um daginn fengum við nokkra gesti í mat. Charlotte, Óli, Geiri og Helga litu við, ásamt restinni af fjölskyldunni okkar. Gunnar Örn töfraði fram mat á mettíma. Boðið var í mat klukkan hálfátta og einungis tveimur tímum síðar byrjuðum við að borða. Maturinn var reyndar mjög góður. Þessi ágæta mynd var tekin af okkur þegar desertinn var borinn fram. Takið eftir klukkunni. Við klikkum aldrei á tímanum.....

sunnudagur, október 22, 2006

Graskerútskurðarpartý

Mjög þjált orð - graskersútskurðarpartý. Við skelltum okkur í slíkt partý til Dick og Jill, host-foreldra Magneu og Jóns Bjarna. Við dressuðum okkur upp og alles, í tilefni af hrekkjarvökunni komandi. Ég skellti á mig englavængjum, Gunnar eldri var með víkingahatt og aðalstjarnan var í tígrabúning. Þetta var stórskemmtilegt allt saman og gaman að prófa að skera út grasker og taka þátt í þessari amerísku hefð.


Fyrst létum við Magneu og JB sýna okkur hvernig ætti að fara að þessu.


Þetta vafðist ekki fyrir kúrekanum káta með yfirvaraskeggið.


Fyrr en varði vorum við Grímur farin að prófa þetta líka. Það var voða leiðinlegt að taka jukkið innan úr fyrst... En samt pínu gaman.


Tadaaa! Rosafínt grasker hjá mér. Ég gat meira að segja hermt eftir því.


Það var fullt af fólki þarna.


Tígurinn ógurlegi og víkingurinn.


Tígurinn ógurlegi og engillinn (eða fiðrildið...?).


Tilraun til hópmyndar fyrir framan graskerin: Solla, Dúna, Anna, Gunni litli og Hekla.


Mjög svo vígaleg grasker.


Mitt var án alls vafa (right) flottast.


Einn sáttur á heimleið, eftir gott hrekkavökupartý. Það tekur á að vera tígur.

miðvikudagur, október 18, 2006

Ísland, fagra Ísland. Here we come!

Núna eru mál familíunnar loksins að komast á hreint. Við erum að fara að flytja til Íslands! Gunnar Örn er kominn með vinnu og við erum búin að skrifa undir samning um kaup á íbúð við Garðastræti. Við gerðumst svo köld að skella okkur á hana án þess að kíkja á hana sjálf en myndirnar af henni voru svo geðveikar og sömuleiðis umsagnir tengdaforeldra minna og Stínu systur. Stína systir sagðist gefa henni 12 af 10 mögulegum og tengdamóðir mín sagðist vel geta hugsað sér að búa þarna sjálf. Við ákváðum að stökkva á þetta, þar sem okkur fannst fátt í líkingu við þessa eign hafa poppað upp á mbl.is/fasteignir í 101 Reykjavík. Hérna eru nokkrar myndanna:





Þannig að nú þarf ég einnig að finna mér vinnu og við þurfum að finna dagmóður fyrir brosvélina. Ef einhvern vantar vatnaverkfræðing í vinnu, þá langar mig að hefja störf í byrjun mars og ef einhvern langar að passa lítinn pjakk, þá vantar hann pláss frá byrjun febrúar. Ég myndi helst vilja vinna 80% en við sjáum hvað setur, skilst að erfitt sé að fá slíkar stöður. En alla vega... Loksins er eitthvað að skýrast hjá okkur.

mánudagur, október 09, 2006

Amazing Race Celeb

Við fórum út að borða á Cheesecake Factory um daginn og erum spurð af þjóninum okkar hvaðan við séum. Þegar við segjum honum að við séum frá Íslandi, segir hann okkur að hann haldi að eiginkona hans hafi komið þangað en hún hafi tekið þátt í Amazing Race. Hann kemur síðan með eiginkonuna, huggulega stúlku, og kynnir hana fyrir okkur og spyr hana aftur hvort hún hafi farið til Íslands (hún var líka þjónn þarna). Hún verður hálfvandræðaleg og segist ekkert mega segja, að hún hafi skrifað undir 10 milljón króna samning um að segja ekkert um ferðir sínar. En sagðist aldrei hafa hitt neinn frá Íslandi áður. Stelpugreyið hefur sjálfsagt sagt kallinum sínum frá ferðum sínum og hann bara babblar um þetta við cheesecake kúnna :S

Það var því gaman að horfa á fyrsta þátt Amazing Race seríunnar í gærkvöldi. Vinkona okkar er ungfrú California og er í liði með ungfrú New York en þær kynntust þegar þær voru herbergisfélagar í Ungfrú Ameríka. Stelpurnar duttu næstum því út í fyrsta þættinum en vonandi er þetta allt á uppleið hjá þeim.

laugardagur, október 07, 2006

Af fimmtugum og fleiru

Foreldrar og bróðir Gríms, svila míns, komu í heimsókn til þeirra í vikunni og verða hér í 10 daga. Við buðum þeim í mat í gærkvöldi og tókum eitt Catan. Í dag varð Áslaug fimmtug og haldið var upp á daginn með því að fara á Scandinavian Heritage Museum, í skipastigann í Ballard og út að borða á voða fínum sjávarréttastað við Lake Washington.


Gunnar Örn reiddi fram dýrindismáltíð, eins og honum er einum lagið.


Hekla horfði á söngleikinn Annie.


Svo tókum við aðeins í Catan.


Afi Siggi, Hekla og Gunnar Magnús við skipastigann.


Afmælisbarnið, Siggi og Magnús úti að borða.


Grímur og Hekla í góðu glensi. Litla stelpan í ofsa fínum, nýjum kjól í afmælinu hjá ömmu sinni.


Aaaaa.... Einn fyrir Mömmu....


Mmmmm... Þetta er rosalega gott.

mánudagur, október 02, 2006

Íslendingapartý

Síðasta laugardag héldu Atli og Tumi partí í Saxe. Þar var slegið upp matveislu á íslenska vísu og grillað á stærstu svölum í Ameríku. Þrusufínt. Það hentaði mjög vel að teitin byrjaði snemma, þannig að við Gunnar Magnús vorum alveg í nokkra klukkutíma í veislunni. Arndís Dúna og Hekla léku við hvern sinn fingur og Mary Frances. Allir skemmtu sér konunglega. Ég þakka strákunum kærlega fyrir okkur. Við Gunni vorum svo miklir sauðir að gleyma myndavél en ég rakst á myndir á síðunni hans Grétars, sem er nýbúi hérna í Radfordinu, og ég ætla að gerast svo kræf að birta nokkrar þeirra.


Hér eru þeir félagar, Atli og Tumi, frískir og fjörugir að vanda.


Óli (sem Hekla er skotin í), Gunni og Johnny cowboy ræða málin.


Grímur tók lagið og Hekla undi sér vel í fangi kúrekans.


Hekla, ég og Gunnar Magnús héldum teboð í boði Arndísar Dúnu, sem var svo sniðug að taka með sér dót.


Og þarna eru Mary Frances og Dúna einnig mættar.